Tuesday, December 19, 2006

Sameining háskólanna (3)

Þorsteinn Vilhjálmsson hefur trú á því að kennarar í sérgreinum við Kennaraháskólann muni fagna sameiningu og þar með nánara samstarfi við hlutaðeigandi skorir Háskóla Íslands. Starfsaðstaðan muni batna við það, störfin verða fjölbreyttari og starfsumhverfið frjórra. Ef þetta gerðist ekki þá væri þar með horfin mikilvæg stoð undan sameiningarhugmyndinni.
Upphafsmaður umræðunnar, Eggert Briem, kveður sér nú aftur hljóðs og líkir sameiningarferlinu við aðdraganda Írakstríðsins. Ekkert samráð sé haft við fulltrúa þeirra deilda sem þekkja eitthvað til náms og kennslu í faggreinum KHÍ, þ.e. hugvísindadeildar og raunvísindadeildar og þeir sem höfðu efasemdir um sameiningu skólanna séu ekki hafðir með í ráðum og gerðir tortryggilegir. Þeir væru sagðir á móti framförum og sæju ekki fjárhagslega ávinninginn af sameiningunni. Þá efast hann um að sameiningin hækki standard KHÍ, þar sem einungis þriðjungur kennara sé með doktorspróf. Fullyrt hafi verið að það myndi breytast við sameininguna. Eggert bendir hins vegar á að þeir sem ekki hafa doktorspróf, fylgdu með í kaupunum. Hann heldur og fram muninum á skólabragnum í skólunum. Kúltúrinn í KHÍ væri allur annar en í HÍ, nýnemar að jafnaði miklu eldri en í HÍ og með annan undirbúning en krafist væri í hugvísinda- og raunvísindadeild HÍ. Auk þess er kennaranám starfsnám og því bundið.
Það sem sé líkt með sameiningarferlinu og aðdraganda Írakstríðsins sé einmitt það að engar umræðu hafa átt sér stað, ekkert talað við þá sem þekkja eitthvað til KHÍ, hvað þá að sjónarmið þeirra væru virt viðlits.
Eggert gefur í skyn að ástæðan fyrir sameiningarferlinu sé að KHÍ ”þurfi að fá hjartahnoð” hjá HÍ. Rektor KHÍ beri hér mikla ábyrgð. Þegar kennsla í raungreinum á þeim brautum framhaldsskólans sem flestir nýnemar KHÍ koma af var skorin verulega niður árið 1999 skv. ákvörðun menntamálaráðuneytisins, gerði KHÍ engar kröfur til nýnema um að þeir bættu það upp með viðeigandi valgreinum í framhaldsskóla.
Nú útskrifar KHÍ kennara, sem eiga að kenna reikning og stærðfræði í grunnskóla, með einungis tveggja vikna nám í stærðfræði við KHÍ að baki, ofan á litla sem enga stærðfræðimenntum í framhaldsskóla. Eggert efast um þessir kennarar hafi það sjálfsöryggi sem þurfi í kennslu. Honum finnst að það hefði mátt byrja á að gera úttekt á KHÍ og fara þar eftir almennri ráðleggingu erlendra sérfræðinga um úttekt á íslenskum háskólum. Kanna hvert hlutverk KHÍ sé og hvernig KHÍ sinnir því, þar á meðal hvort kennarar KHÍ séu starfi sínu vaxnir. Síðan mætti skoða hvort kennarar HÍ geta gert betur o.s.frv. Að fengnum svörum hefði verið hægt að hefja umræður innan HÍ um málið, og í framhaldinu setja fram markmið með sameiningu - eða bara hætta við.
Hann spyr að lokum hvað stoði nú rök eða staðreyndir þegar Alþingi sé búið að samþykkja sameininguna og vitnar í Oscar Wilde um að forðast bæri rök og staðreyndir í allri umræðu, þau væru ávallt ruddaleg og alltof sannfærandi. Reyndar kom nú innlegg frá Hjalta Hugasyni kirkjusöguprófessor og fyrrum vararektor við KHÍ um að frumvarpið hafi ekki verið samþykkt heldur frestað að taka ákvörðun um það þar til eftir áramót.
Þorsteinn Vilhjálmsson svarar þessu og vill ekki viðurkenna að upplýsingar hafi ekki legið fyrir. Hægt hafi verið að lesa frumvarpið um sameininguna á vefnum, ásamt fylgiskjölum. Þar komi fram að fulltrúar KHÍ í undirbúningi málsins hafa áskilið að HÍ verði skipt í skóla í tengslum við sameininguna.
Svo virðist hins vegar að HÍ hefði ekki sett nein skilyrði í málinu, t.d. um að framlögð gögn taki af allan vafa um það að kennsla í sérgreinum kennaranáms verði í höndum skora HÍ eftir sameininguna.
Með því móti myndi staða sérgreinanna í kennaramenntun og skólakerfi styrkjast til muna að hans mati og ýmislegt af því sem nú er talið fara aflaga mundi leysast sjálfkrafa. Kennarastöður yrðu jafnvel auglýstar og hæfasti umsækjandi einfaldlega valinn hverju sinni. Þessi breyting mundi hafa veruleg áhrif strax og síðan ganga fram til fulls á 10-20 árum svipað og ýmsar aðrar svipaðar breytingar sem gerðar hafa verið í skólakerfinu.
Þá finnst honum undarlegt að ekki sé tekið á inntökumálum þegar fjallað sé um þetta og að inntökuaðferðir í kennaranámið verði með einhverjum hætti felldar að inntöku í annað nám við HÍ um leið og sameining fer fram. Að öðrum kosti hljóti menn að spyrja hvað orðið sameining merki.

Sá eini sem hefur brugðist til varnar Kennaraháskólanum er Ásgrímur Angantýsson, doktorsnemi í íslenskri málfræði.
Honum finnst hin hagnýta áhersla á náminu við KHÍ vera mikilvægt mótvægi við hina fræðilegu áherslu í HÍ. Of bóknámsmiðuð inntökuskilyrði og of bóknámsmiðað
kennaranám muni skaða menntun í landinu og gera hana einsleitari. Mannlegi þátturinn sem einkenni KHÍ megi ekki verða útundan. Hvað t.d. með verk- og listgreinar? Hvað með sértæka aðstoð við börn sem eiga í erfiðleikum með bóknám?
Þó svo að kennaranemendur hafi ekki nægan undirbúning til að kenna stærðfræði og raungreinar megi þó ekki gleyma því að þeir sem hafa lokið námi af mála- og
félagsfræðibrautum ættu að vera betur undir kennarastarfið búnir. Þeir hafi lagt sig meira eftir því að kynna sér húmanísk fræði, samfélagsgerðina og þann breytileika sem bíður þeirra sem fara að kenna í leik- og grunnskólum. Áhyggjur um að starfsemi KHÍ muni færa nám við HÍ niður á lægra plan stafa af neikvæðum viðhorfum gagnvart hagnýtu námi og starfi í uppeldis- og umönnunargreinum.
Arngrímur er sjálfur ekki viss um að “því góða starfi sem unnið er í KHÍ sé endilega best borgið innan veggja HÍ." Þá vill hann ekki undir nokkrum kringumstæðum styðja enn frekari takmarkanir inntökuskilyrða svo sem að meina nemendum af náttúrufræðibrautum aðgang að hug- eða félagsvísindagreinum. Hann vill búa þannig um hnútana að allt sé opið að loknu stúdentsprófi.
Í umræðu Arngríms við Gísla Gunnarsson kemur m.a.s. fram gagnrýni á réttindanám framhaldsskólakennara. Hann spyr hvort menntun þeirra taki nægilegt mið af starfinu núorðið því að talsverðar breytingar hafi orðið á Því. M.a. hafi verið gagnrýnt að tengslin við faggreinarnar séu ekki nógu markviss.

Sameining háskólanna (2)

Höskuldur Þráinsson prófessor er sammála Jóni Torfa Jónassyni um að það hafi ekki verið mikið um efnislegar umræður um sameiningarmál HÍ og KHÍ vegna þess að menn hafi ekki vitað vel hvað stæði til. Hann segir einnig frá því að þegar hugmyndin hafi verið kynnt fyrir íslenskuskori á sl. háskólaári þá hafi aðeins legið fyrir stutt "skilagrein" frá nefnd fulltrúa frá HÍ og KHÍ sem höfðu fjallað um málið. Þar hafi aðeins verið farið almennum orðum um kosti slíkrar sameiningar, um að stærri skóli yrði auðvitað öflugri skóli, en ekkert rætt um það í hverju hún gæti verið fólgin í smáatriðum eða hvernig mætti standa að henni. Þess vegna urðu litlar efnislegar umræður um málið og skorin sendi ekki frá sér neina efnislega ályktun.
Höskuldur segir einnig frá kynningarfundi um fyrirhugaðar breytingar á námi í KHÍ, sem haldinn var í Lögbergi sl. vetur. Þar hafi Ólafur Proppé, rektor KHÍ, greint frá miklum áhuga Kennaraháskólamanna á að efla framhaldsnámið. Þeir litu mjög til aukins samstarfs við HÍ í því sambandi, ekki síst með það í huga að senda nemendur úr KHÍ í ýmis fagleg námskeið við HÍ sem þeim byðust ekki við KHÍ.
Á fundinum lýstu margt HÍ fólk efasemdum sínum á þessum hugmyndum og lýstu um leið áhuga á því að efla það kennaranám sem þegar færi fram innan HÍ. Í nefndinni frá HÍ og KHÍ sem samdi skilagreinina um sameiningarmálið voru engir fulltrúar úr þeim tveimur deildum í HÍ sem sameining og aukin samvinna varðaði mest, þ.e. úr Hugvísindadeild og Raunvísindadeild. Þær sjá um kennslu í þeim faggreinum sem eru á dagskrá í grunnskóla og framhaldsskóla (tungumál, íslenska, saga, stærðfræði, eðlisfræði, náttúrufræði ...)
Á fundi á Hátíðasal HÍ sl. vor voru þessi mál aftur á dagskrá. Þá komu aftur fram þessi sjónarmið. Höskuldi finnst erfitt að ræða þessi mál á skynsamlegan hátt nema fyrir liggi einhverjir tilteknir kostir sem hægt sé að vega og meta. Hér sé haft það verklag, sem ekki sé dæmalaust í svipuðum tilvikum, að ákveða fyrst að sameina og reyna svo að leysa vandamálin síðar með því að gera það besta úr öllu saman.
Rektorarnir tóku undir það að auðvitað væri brýnt að vanda vel til verka og hafa undirbúninginn sem traustastan. Ólafur Proppé, rektor KHÍ, sagði að sameining af þessu tagi hefði farið fram á ýmsum stöðum erlendis og það væri um ýmis módel að velja. Höskuldur bendir hins vegar á að ekki hafi komið fram hvaða módell væri helst haft í huga. Hvernig ætti að vinna verkið, þ.e. efla kennaramenntun í landinu, bæði fyrir grunnskólastig og framhaldsskólastig? Því vakni efasemdir um að hér væri aðeins um tilfærslu á skrifstofum og uppstokkun á stjórnsýslusviði að ræða.

Þorsteinn Vilhjálsson prófessor í eðlisfræði lagði næst orð í belg og lýsti sínu sjónarhorni. Hann talaði um þrjú fög sem skiptu höfuðmáli í öllu námi: íslenska, enska og stærðfræði. Það skipti sköpum fyrir starf og stöðu Háskólans að undirbúningur í þessum fögum væri sem bestur í grunnskólum og framhaldsskólum. Til þess þurfi menntun kennara í þessum greinum í skólakerfinu að vera sem best. Flestir telji hins vegar að undirbúningnum sé verulega ábótavant.
Þorsteinn nefnir stærðfræðina sem dæmi og reyndar einnig aðrar raungreinar. Úr þessu megi bæta með því að færa kennslu handa kennaraefnum í þessum greinum til viðkomandi skora Háskólans. Ungt, vel menntað og áhugasamt fólk sækist eftir störfum þar og þannig mundi hæfni þess nýtast bæði við kennslu og rannsóknir sem menn mundu stunda eins og aðrir kennarar við HÍ. Þessi tilfærsla verkefna gæti með því móti líka orðið til að efla rannsóknir.
Fleiri skorir Háskólans væru eflaust tilbúnar að taka að sér kennslu kennaranema í sínum greinum. Þær hefðu þannig bein áhrif á skólakerfið og þekking þeiira mundi nýtast miklu betur en nú er. Ef sameiningin myndi verða til þess styddi hann hana eindregið.

Þessa beinu gagnrýni á kennsluna í KHÍ gat Freyja Hreinsdóttir dósent í stærðfræði við Kennararháskólann ekki látið ósvarað. Hún tók samt undir með Þorsteini um ófullnægjandi undirbúning kennaranema við skólann í stærðfræði. Vægi stærðfræði sé aðeins 4 einingar af 90. Þá komi flestir nýnemar á grunnskólabraut af félagsfræðibraut framhaldsskóla þar sem einungis þarf að ljúka 6 einingum í stærðfræði. Til samanburðar má nefna að inntökuskilyrði í Raunvísindadeild er að hafa lokið 21 einingu í stærðfræði og Verkfræðideild mælir með 24 einingum í stærðfræði.
Hún bendir þó einnig á að stærðfræðikjörsvið KHÍ hafi á undanförnum árum vaxið úr 15 einingum í 30 einingar. 15-30 nemendur velji það ár hvert. Þetta séu einkum þeir sem hyggist verða unglingastigskennarar í stærðfræði.
Framhaldsskólakennarar í stærðfræði hafi hingað til sótt sína menntun til Raunvísindadeildar HÍ. Þó sé árangur þessa fyrirkomulags ekki meiri en svo að innan við 50% af stærðfræðikennslu framhaldsskólans sé á höndum kennara með BS-próf í stærðfræði.
Freyja kennir slakri menntun grunnskólakennara í stærðfræði því að hinn almenni kennaranemi sé með lítinn undirbúning í stærðfræði úr framhaldsskóla og að stærðfræðikennarar við skólann hafi afar fáar einingar til umráða til að bæta úr þessu. Miðað við það að stærðfræði sé næststærsta kennslugrein grunnskólans þá útskrifast of fáir nemendur af stærðfræðikjörsviði KHÍ.
Að lokum bendir Freyja á að nú standi yfir endurskipulagning á námi við KHÍ. Kennarar í stærðfræðigreinum við skólann krefjist að stærðfræði fái meira vægi.

Það vekur hins vegar furðu mína að Kennaraháskólinn sé að endurskoða eigin kennslu mitt í sameiningarferlinu við HÍ. Eðlilegra fyndist manni að beðið væri með slíkt þar til eftir sameiningu, eða þá að endurskipulagningin væri unnin í samráði við HÍ. Að það skuli ekki vera gert vekur upp efasemdir um að sameiningarferlið sé nokkuð annað en orðin tóm. Kennararskólinn muni eftir sem áður hafa sína hentisemi um innra skipulag sitt án nokkurs samráðs við Háskóla Íslands.

Monday, December 18, 2006

Sameining háskólanna

Umræðan um sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskólans.

Eggert Bríem prófessor í stærðfræði við HÍ hóf umræðu um þetta mál á HI-starfi er hann heyrði af hugmyndum um að skipta Háskólanum upp í fimm “skóla” vegna sameiningarinnar við KHÍ. Hann óttaðist m.a. að þetta ynni gegn áætlununum um að koma HÍ í flokk 100 bestu háskóla í heimi, hvort sem það er nú raunhæf hugmynd eða ekki. Honum þótti og undirbúningur að þessum breytingum ekki vera nægilegur. Ef gera eigi breytingar á stofnun eins og HÍ þurfi “mikla sýn, góðar hugmyndir og mikinn kraft” sem vantar í þau drög sem kynnt hafa verið. Sameining HÍ og KHÍ sé ”afskaplega slæm hugmynd”.
Jón Torfi Jónasson tók næstur til máls en geta má þess að hann var einn þeirra sem komu sterklega til greina í stöðu rektors hér fyrir skemmstu. Hann byrjar á því að kvarta yfir að hann viti ekki um hvað málið snúist, né rökin vegna sameiningarinnar. Sennilega snúist það ”einungis um að KHÍ verði hluti af HÍ og svo verði að ráðast hvort eitthvað fleira gerist. Rökin væru hagkvæmni stærðarinnar: þeim mun stærri stofnun, því betri.” Honum heyrist umræðan sé ekki lengra komin. KHÍ hafi ekki sett annað veigamikið skilyrði fyrir sameiningu en að HÍ verði skipt upp í skóla og honum skilist að það eigi að verða við þeirri ósk.
Hann sjálfur telur sameininguna ekki verða þróun kennaramenntunar til framdráttar. Helsta umkvörtunarefni hans er þó það að um málið hafi ekki verið efnisleg umræða, þ.e.a.s. engin umræða um kennaramenntun. Fyrst eigi að afgreiða málið og ræða það
síðan; þannig gangi framkvæmdafólk til verka.
Þá greindi hann frá því að uppeldis- og menntunarfræðiskor hafi haldið málstofu sem
var hugsuð sem upplýsingafundur um efnið. Þar hafi verið augljóst að engin efnisleg umræða um sameiningu hafði farið fram í KHÍ. Hann spyr því um hvaða breytingar sé verið að ræða. Frummælendur á málstofunni, sem voru m.a. deildarforsetar í sinni deild, vissu ekki hverju sameining myndi breyta og sáu ekki fyrir sér að hún leysti nein vandamál. Aðalatriðið virtist vera að stokka upp KHÍ.
Jón Torfi spyr einnig hver eigi að taka þær ákvarðanir um kennaramenntun sem teknar verða og gagnrýnir að það hafi ekki verið rætt, né aðrar aðgerðir til að koma á samstarfi um kennaramenntun milli skólanna. Hann spyr hver eigi að hafa forræði um það aðrir en deildirnar sjálfar?
Honum finnst kostulegt hvernig hægt hefur verið að ræða yfirborðslega um sameiningu í
nokkur ár án þess að minnast sem heitið getur á lykilatriði málsins: skipan,
stöðu og þróun kennaramenntunar. Kannski snúist þó málið ekki um kennaramenntun heldur eitthvað allt annað. En hvaö þá?

Kennslufræðin (3)

Þá er komið að sjálfri starfskenningunni. Hægt er að taka undir það sjónarmið að það sé engin einn lykill að kennarastarfinu, engin ein lausn til á því hvernig góður kennari sé eða eigi að vera. Starfkenningin þarf nefnilega að vera í sífelldri mótun enda koma fram sífellt nýir nemendur, nýjar hugmyndir og nýjar kennslubækur. Hver kennari hefur sinn eigin stíl en er samt alltaf að læra eitthvað nýtt allt sitt kennaralíf.
Tvö atriði eru mikilvæg í þessu sambandi að mínu mati. Annars vegar góð tengsl við nemendur og skilningur á því hvernig þeir hugsa um námsefnið og hinsvegar að kennarinn skilji sjálfur viðfangsefni sitt.
Því er mikilvægt fyrir kennara að vera ávallt vel skipulagður og undirbúinn fyrir hverja kennslustund, bera virðingu fyrir nemendum og búast alltaf við jákvæðum hlutum frá þeim. Þá er mikilvægt að vera maður sjálfur, láta sér líða vel í kennslustund og sýna mannlegu hliðarnar. Einnig er mikilvægt að vera opinn fyrir hugmyndum nemenda og þeirra veruleika og reyna að tengja kennsluna við hann. Hafa húmor fyrir sjálfum sér og geta slegið á létta strengi.
Segja má að ég vilji með minni starfskenningu reyna að sameina beina kennslu og hugsmíðahyggju, þ.e.a.s. leggja áherslu á mikilvægi þess að kennarinn sé vel að sér í greininni, að hann taki tillit til stöðu nemenda og vinni einnig út frá henni. Með því að sameina þetta tvennt, hina námsmiðlægu og nemendamiðlægu kennslu, trúi ég að góður árangur náist við tvö höfuðmarkmið allrar kennslu. Annars vegar að búa nemandann undir áframhaldandi nám á hærri skólastigum eða undir starf úti í samfélaginu. Hins vegar að hjálpa nemendunum til að þroskast andlega og tilfinningalega, verða betur í stakk búnir til að takast á við lífið sem bíður þarna úti í framtíðinni. Þ.e. að takast á við lífið jafnt í gleði og í sorg. Er þetta tvennt í sameiningu ekki hið ídeala?

Kennslufræðin

Eitt af þeim vandamálum sem maður rakst á í æfingakennslunni var eigin tilhneiging til að ausa af brunni sinnar miklu þekkingar svo nemendurnir stóðu á blístri – og hvernig manni hættir til að festast í þeirri kennsluhefð sem var notuð á manns eigin skólaárum, þ.e. mötunarforminu.
Góð samskipti við nemendur eru þó líklega það sem skiptir mestu máli hvað árangursríkt nám varðar,að hafa áhuga á nemendum sínum, virða þá og treysta þeim. Þá myndast gagnkvæm virðing.
Slíkt er sérstaklega mikilvægt þegar upp koma ýmis vandamál og truflun í kennslustofunni, svo sem með farsíma, i-pott, fartölvur o.s.frv. Á slíku verður að taka með þolinmæði enda vita nemendur það best sjálfir hvað er viðeigandi og hvað ekki. Ef hins vegar slíkt endurtekur sig oft þarf með lagni að leiða nemandann frá villu síns vegar, t.d. að fara að vinna verkefnið í tölvunni í stað þess að vera í tölvuspili eða einhverju þvílíku. Ef það nægir ekki eru hin fjögur augu best. Ef slík vandamál eru almenn í bekknum þá er þörf á bekkjarfundum þar sem málin eru rædd og sjónarmið nemenda um kennslufyrirkomulagið fá að heyrast.

Kennslufræðin

Færslu þessari er ætlað að sýna mótun starfshugmynda minna um kennslu í einhverri hugvísindagreinanna, einni eða fleiri. Hún birtir ígrundanir mínar um nám í kennslufræðlu í félagsvísindadeild HÍ haustið 2006 og hvernig kennari ég gæti hugsað mér að verða (þ.e. starfskenningu mína). Slík kenning er ávallt í gerjum og mótast smám saman af því sem maður upplifir í námi og í praktík úti í skólanum. Ég hef það að markmiði í náminu að leggja jafna áherslu á teoríu og praxis, þ.e. jafnt á kenninguna og útfærslu hennar. Vonandi litast færslan að þeirri viðleitni minni.

Við starfskenningargreiningu skiptir samband kennara við nemendur miklu máli, þ.e. hinn mannlegi þáttur. Tala má um fjóra mikilvæga þætti: virðingu fyrir nemendum, þekkingu á efninu, áhuga á því og sjálfsöryggi.
Ég lít svo á að markmið kennarans sé fyrst og fremst það að undirbúa nemendur sem best fyrir áframhaldandi nám. Til þess þurfi að nota fjölbreyttar kennsluaðferðir, virkja nemendur og gera þá ábyrga í námi. Til þess að svo geti orðið þarf kennarinn að vera sívirkur í þróunarstarfi.
Það er hins vegar hægara sagt en gert þar sem starf kennarans fer í svo margt annað en að þróa starf sitt. Það tekur tíma að undirbúa kennslu, í sjálfa kennsluna, fara yfir verkefni nemenda og meta þá, sitja deildarfundi og almenna kennarafundi, hafa umsjón með vali nemenda á námsgreinum o.s.frv.
Þá er mikil vinna í því fólgin að fá nemendur til að læra það sem fyrir þá er sett, t.d. heimanám.
Einnig er mikilvægt að kenna þeim að læra um sjálfa sig og lífið sem bíður þeirra, læra að þekkja tilfinningar sínar og þroska þær. Að þau læri að vinna með öðrum og axla ábyrgð, jafnframt því að þau hugsi og vinni sjálfstætt.
Þetta eru auðvitað ærin verkefni hvers kennara. Ofan á það bætist samvinna með öðrum kennurum sem er nauðsynleg, svo sem að fylgjast með því hvað þeir eru að gera, ekki aðeins kennarar í eigin fagi, heldur einnig þeir sem eru að kenna svipað námefni.
Þetta er mikilvægt svo kennarinn einangrist ekki í sínu starfi, kynnist nýjum kennsluaðferðum og þjálfist í því að nota þær. Öll þessi vinna, og áreiti, gerir það að verkum að kennarinn á erfitt með að vera hinn ídeali kennari sem sífellt er verið að hamra á af kennslufræðingunum. T.d. er hætt við að ekki verði mikið um endurgjöf eins og ávallt er verið að ítreka í handbók æfingakennslunnar. Auðvitað þarf að efla samvinnu milli kennara en til þess að svo geti orðið er nauðsynlegt er að gefið sé aukið svigrúm til þess í námskránni og m.a.s. í stundatöflu kennara. Þá kemur óhentug vinnuaðstaða, þrengsli og fleira í veg fyrir virka samvinnu en ég varð áþreifanlega var við slíkt í MH hvað aðstöðu sögukennarana varðar.